149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Að afhenda auðlindir okkar erlendum yfirráðum. Það er kjarni þessa máls og það verður raunin þegar það er allt gengið í gegn, eins og ríkisstjórnin stefnir að, og hér verður kominn sæstrengur. Þá munum við ekki hafa um það að segja hvernig þessum málefnum verður hagað. Það er bara staðreynd. Það er bara eðli þess að undirgangast þetta sameiginlega markaðssvæði. Í staðinn höfum við tækifæri til að leita sátta innan sameiginlegu nefndarinnar, EES-nefndarinnar, og fá varanlega undanþágu og lausn sem báðir aðilar eru sáttir við. En einhverra hluta vegna hefur ríkisstjórnin ekki haft dug eða þor til að fara þá leið og hefur lýst því yfir að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið verði í uppnámi ef sú leið verður farin. Við höfum rætt nokkuð hér hvers vegna ríkisstjórnin lítur svo á. Hún hefur einkum og sér í lagi lagt fram eitt álit máli sínu til stuðnings, sem er eftir erlendan ráðgjafa.

Mig langar að fá skoðanir hv. þingmanns á því hvað hann telji að valdi því í svo veigamiklu máli að ríkisstjórnin styðst við eitt álit. (Forseti hringir.) Hefði ekki verið eðlilegra að leitað hefði verið álits fleiri sérfræðinga og erlendra sérfræðinga til þess að fá meiri breidd í málið?