149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:26]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni kærlega fyrir andsvarið. Á síðari stigum máls var óskað eftir því að í nefndinni að fleiri sérfræðingar væru kallaðir til, en við því var ekki orðið. Niðurstaðan varð sú að óskað var eftir áliti af hálfu utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytisins hjá einum erlendum sérfræðingi. Auðvitað hefði verið eðlilegt að fá fleiri álít og spyrja fjölþættari spurninga en gert var til þess að komast betur til botns í þessu máli. En það sem er áhugavert við það er að álitið sem birt er inni á vef Alþingis er birt í heild sinni á ensku, en svo er einnig birt samantekt, útdráttur. Í því skjali birtast upplýsingar sem eru þess eðlis að þar er mikið gert úr því sem gæti hrætt okkur Íslendinga til að taka þá ákvörðun sem lagt er til í umræddri þingsályktunartillögu. Ef álit dr. Carls Baudenbachers prófessors er hins vegar lesið í heild sinni er þar að finna upplýsingar (Forseti hringir.) sem ég kem að í næsta svari mínu þar sem ég sé að tíminn er hlaupinn frá mér.