149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:30]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Látið var að því liggja, án lagalegs rökstuðnings, hjá þessum mikilsvirta manni, Baudenbacher, og mikið gert úr í álitsgerðinni — sem átti náttúrlega að vera lögfræðilegs eðlis, en hluti þessarar álitsgerðar er eingöngu pólitísks eðlis — að refsingar sem dunið gætu á okkur Íslendingum gætu verið í ýmsu formi og gengið svo langt að það gæti orðið til þess að okkur yrði vísað úr samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. að samningurinn væri undir. En það er algerlega án nokkurs lagalegs rökstuðnings og þess er hvergi stoð að finna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá pólitísku niðurstöðu fær Baudenbacher með því að ganga út frá því að Ísland hafni með öllu að innleiða.

Hins vegar víkur hann að því í 15. tölulið á blaðsíðu 7 í áliti sínu þar sem hann ræðir um andstöðuna sem hefur myndast á Íslandi, að hún snúist að meginhluta um innleiðingu á reglugerð EB nr. 713/2009 og um ACER og að sjónarmiðunum sem hafi verið haldið á lofti hér og í sameiginlegu EES-nefndinni — nota bene: í sameiginlegu EES-nefndinni — að Ísland hafi viðrað áhuga sinn þar á því að fara aftur með málið til sameiginlegu EES-nefndarinnar með það að markmiði að semja aftur fyrir Íslands hönd um aðra aðlögun eða niðurstöðu vegna þriðja orkupakkans, og þá einkum með tilliti til reglugerðar 713/2009. Það er alveg sérstaklega áhugavert að niðurstaðan varðandi þessa hugleiðingu Íslands (Forseti hringir.) er stutt: „… that would do no harm“, hæstv. forseti. Það er niðurstaða lögfræðingsins. — Það yrði að meinalausu.