149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verst ekki þeirri hugsun algjörlega, hv. þingmaður, að ríkisstjórnin hafi, hvað á ég að segja, verið búin að ákveða niðurstöðuna áður en farið var að auglýsa eftir skýrslum og tillögum í þessu efni. Það byggi ég á því að þegar þeir tveir sem mest hefur verið vitnað hér til, Friðrik Hirst og Stefán Már Stefánsson, voru búnir að gera drög að skýrslu fór hún til utanríkisráðuneytisins. Þeir fengu hana aftur til að betrumbæta hana. Síðan hef ég haft „tendens“ til að líta þannig til að þegar prófessor Baudenbacher kom hingað á síðustu stundu hafi það verið einhvers konar panikgjörningur, ef ég get orðað það þannig, til að leita sér að einhverri úrslitaniðurstöðu til að geta byggt allt á.

Mig langar til að heyra hvort hv. þingmaður er mér sammála um þetta. Mér finnst að ríkisstjórnin og fylgisveinar hennar hafi einhvern veginn verið að finna sér átyllu til að gera ekki það rétta í málinu, sem er að afneita pakkanum og senda hann aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Mig langar því aðeins til að spyrja hv. þingmann hvort þetta sé svona nærri lagi hjá mér að hans mati, að framkvæmdin hafi verið með þeim hætti að menn hafi verið að panta sér fyrirframgefnar niðurstöður, svona um það bil. (Forseti hringir.) Nú ætla ég ekki að draga úr fræðimannsheiðri þeirra (Forseti hringir.) ágætu manna sem þarna voru, en maður hefur tilhneigingu til að halda að þetta hafi verið svona einhvern veginn með þessum ráðum gert.