149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég held einmitt að þarna sé hundurinn grafinn, að menn hafi náð sér í álit og upplýsingar sem þeir voru um það bil vissir um að gætu nægt til þess að snúa þessum fáu þingmönnum sem þeir höfðu á báðum áttum til að taka „rétta“ ákvörðun. Vegna þess að mér finnst ekki alveg einleikið að þessi hópur þingmanna, sem eru nokkrir, skuli snúa sér í sömu átt, svona á jafn stuttum tíma eða löngum og skipta gjörsamlega um skoðun og taka 180° viðsnúning í þessu máli.

Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni, ég veit ekki hvort hv. þingmaður er mér sammála, að það hafi verið allt kapp lagt á það að berja liðið saman, eins og maður kallar það, vera alveg viss um það að allir væru með og að menn hafi bara notað þau meðul sem þurfti til að ná fram því takmarki.

Mig langar aðeins til að heyra hvað hv. þingmaður hefur um þetta að segja, vegna þess að það er alveg næsta víst að menn eru að skauta fram hjá þeim álitum sem gera ráð fyrir því að pakkanum verði hafnað og hann sendur aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Menn eru gjörsamlega að skauta fram hjá þeim möguleika og einblína á álit sem ekki innifela það. Varkárasta álitið, sem menn þykjast núna hafa farið eftir, gerði hins vegar í sjálfu sér ráð fyrir að þetta verði gert en þó á mjög varkáran hátt, vegna þess að þeir ágætu fræðimenn sem þar áttu í hlut vildu ómögulega blanda sér í pólitík og ég skil það mjög vel. En engu að síður var það þessi (Forseti hringir.) ætlan að teygja sig í þau álit sem menn vissu að myndu gefa (Forseti hringir.) þeim hagfellda niðurstöðu.