149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, við getum sannarlega verið sammála um það vegna þess að í upphafi umræðunnar var í sjálfu sér hægt að setja kostina upp á tvo einfalda vegu. Annar kosturinn, þ.e. sá kostur sem hæstv. utanríkisráðherra velur, og það virðist svo að meiri hluti Alþingis ætli að fylgja honum í þeirri vegferð, ber í sér lögfræðilega óvissu. Um það voru og eru allir sammála, allir sérfræðingar, alveg sama að hvaða niðurstöðu þeir annars komust, þá var þetta út af fyrir sig einfalda niðurstaðan. Hin niðurstaðan, þ.e. að fara þá leið að vísa þessari gerð á bug og endursenda hana í sameiginlegu nefndina hefur í för með sér, eins og komið hefur fram, pólitíska óvissu. Það hefur jú komið fram að við stjórnmálamenn erum nánast að eiga við pólitíska óvissu alla daga með einhverjum hætti, stundum mikla, stundum minni. En vegna þess að allt orkar tvímælis þá gert er, þá getum við aldrei gengið, eða sjaldan, að einhverjum hlutum algerlega vísum, að þeir fari nákvæmlega eins og ætlast er til eða eins og við ætlumst til að þeir fari.

En til að fara þessa leið, þ.e. þá sem felur í sér pólitíska óvissu, þurfa menn að búa yfir nokkrum kjarki og djörfung. Það eru eiginleikar sem eru nánast ekki til í núverandi ríkisstjórn. Það fer rosalega lítið fyrir þeim meðal fylgisveina ríkisstjórnarinnar og fylgismeyja. Við sitjum því uppi með þetta (Forseti hringir.) og þess vegna er þessi óvissuferð kannski að fara af stað ef þessi gerð (Forseti hringir.) verður samþykkt og innleidd hér eins og allt bendir til.