149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Svo virðist sem þeirri ríkisstjórn sem hér situr sé ekki mjög lagið að hlusta, hvort sem um er að ræða stór eða smá fyrirtæki, almenning í landinu. Það virðist ekki vera svo að ríkisstjórnin taki sér tíma til að hlusta á raddir fólksins fyrir utan þetta hús. Maður hefði kannski haldið að þessi ríkisstjórn, þessi samrunaríkisstjórn, myndi hlusta á alþýðu þessa lands. En því miður þá er það ekki raunin og við því er ekkert að segja. Menn taka ákveðna áhættu með því og að mínu áliti er sú áhætta töluvert stór. Ég skil ekki alveg hvernig menn ætla að sjá fram úr því báli.

Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á þá hafa sumir meðlimir alþýðusamtakanna látið hafa eftir sér að það sé hugsanlegt að nýgerðum kjarasamningi verði sagt upp, sem yrði náttúrlega meiri háttar áfall ef af yrði. Annað mál er að það er ósamið enn við allan ríkisgeirann. Ég veit ekki hvort hlustunarskilyrði ríkisstjórnarinnar batna eitthvað við þá samningagerð.

Það er alveg ljóst að það er erfitt að ganga til samninga við alþýðusamtökin með þessa gerð upp úr rassvasanum sem hefur augljóslega í för með sér hækkandi orkuverð, (Forseti hringir.) sem aftur á móti hækkar vísitölu og hækkar annan kostnað heimilanna.