149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði í fyrra andsvari að þessari ríkisstjórn lætur ekki mjög vel að hlusta og í sjálfu sér þarf ekki að koma á óvart að 70% umsagna um orkupakka númer þrjú skulu vera neikvæð þegar við vitum að samkvæmt könnunum eru 62% landsmanna á móti þessum sama pakka. En ríkisstjórnin hlustar ekki. Og hún hlustar heldur ekki á það þegar henni er, eigum við að segja, bent á lausnina, þ.e. margir sérfræðingar hafa bent á þá augljósu lausn sem felst í EES-samningnum sjálfum en ríkisstjórnin hlustar ekki. Sá hópur sem hér er og hefur maldað í móinn undanfarið hefur líka bent á að þessi möguleiki sé nærtækur og sjálfsagður. En ríkisstjórnin hlustar ekki.

Þegar stjórnvöld hlusta ekki á þegna sína þá endar það yfirleitt aldrei farsællega. Þess vegna hef ég sömu áhyggjur og hv. þingmaður sem hér spurði. Ég hef áhyggjur af því að afleiðingarnar af því að samþykkja þennan gjörning verði yfir það heila tekið slæmar. Og ég hef þá trú sem hefur líka kunngerst hér í þessari umræðu að að þessum pakka samþykktum verði ekki sami friður um EES-samninginn í heild, þ.e. að álit landsmanna eða viðhorf til samningsins verði ekki það sama og áður. Það væri mjög miður.