149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:14]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég var ekki kominn svo langt í yfirferð minni yfir umsagnir málsins. Ég var búinn að kynna mér umsagnir ýmissa þjóðþekktra einstaklinga og sveitarfélaganna og nokkurra annarra en ekki Samtaka iðnaðarins. Ég deili athugasemdum hv. þm. Birgis Þórarinssonar um umsögn Samtaka iðnaðarins.

Mér finnst umsagnirnar frá sveitarfélögunum líka athyglisverðar. Mér finnst það mjög athyglisvert hvernig þau lýsa sínum efasemdum um þörf á innleiðingu orkutilskipunar Evrópusambandsins, eins og t.d. hægt er að lesa í umsögn Hrunamannahrepps, með leyfi forseta, úr fundargerð hreppsins. Hún endar með þessum orðum:

„Sveitarstjórn hefur efasemdir um að þörf sé á að samþykkja þriðja orkupakkann.“

Það þarf ekkert frekari orð um þetta. Það þarf kannski ekki að halda ræður dögum saman til að benda stjórnarliðum á að þetta er nákvæmlega málið, herra forseti. Hver er þörfin?

Í umsögn Bláskógabyggðar, sem er töluvert ítarlegri, er að finna þessar athugasemdir, með leyfi forseta:

„Brýnt er að tryggt sé að ekki felist afsal á valdi í samþykktum Alþingis vegna innleiðingarinnar og að hún feli ekki í sér töku ákvarðana sem hafa í för með sér hækkun á raforkuverði. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggur mikla áherslu á að löggjafar-, ríkis- og dómsvald í orkumálum verði alfarið í höndum Íslendinga. Af hálfu Bláskógabyggðar er lögð rík áhersla á að innlend orka verði notuð til innlendrar framleiðslu, en ekki flutt út sem hrávara.“