149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og þakka honum sérstaklega fyrir að hafa bent á það hér nú og reyndar í ræðu hans fyrr í nótt hver afstaða margra sveitarfélaga er þegar kemur að þessum orkupakka og hversu mörg þeirra eru á móti honum. Það vekur náttúrlega upp margar spurningar að ríkisvaldið skuli ekki hlusta eftir þessu. Það verður náttúrlega að eiga góð samskipti við sveitarfélögin. En ríkisvaldið virðist hins vegar koma fram við sveitarfélögin með þeim hætti að það verður að teljast mjög óskynsamlegt af hálfu þess. Þar nefni ég t.d. breytingar á jöfnunarsjóðnum sem hafa mikið verið ræddar og frystingu fjármuna sem mun kosta sveitarfélögin (Forseti hringir.) hundruð milljóna. Það er margs að gæta í þessu og ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda (Forseti hringir.) á þetta með sveitarfélögin.