149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:18]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afbragðsgóða ræðu og jafnvel enn betri svör. Það er áhugavert að sitja og fá að hlusta á svörin og ræðu þingmanns. Mig langar til að þakka honum fyrir að koma með þennan punkt í umræðuna um sveitarfélögin, sem eru ekki lítill hluti af því sem myndi teljast Ísland. Í sveitarfélögunum býr í fólkið. Sveitarfélögin eru í mjög nánu samstarfi og samskiptum við ríkisstjórnina. Stjórnsýsla og fjármál sveitarfélaga eru nátengd fjármálum ríkisins. Atvinnulífið, sem fram fer í sveitarfélögunum, er nátengt ríkinu og raunverulega eru sveitarfélögin, ríkið þegar búið er að skipta því upp í ákveðnar einingar. Ef sveitarfélögin sem slík meta það svo að það sé neikvætt að innleiða orkupakka þrjú í íslenskan rétt og binda íslenska ríkið þar með að þjóðarétti, er þá ekki ráð að hlusta, hv. þingmaður? Maður myndi halda að þarna væru komnir þungavigtaraðilar sem ætti að hlusta á í þessari umræðu. Ég get ekki skilið það öðruvísi.