149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Nei, þeir hlusta svo sannarlega ekki, jafnvel þótt þeim hafi verið bent á það af öllum þessum aðilum, fjölmörgum umsagnaraðilum og fleirum, að leiðin er greið. Leiðin er greið, herra forseti. Leiðin í þessu máli er greið. Hún er samningsbundin. Hún er lögbundin og það er margoft búið að benda á hana. Hana er að finna í 102. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þar sem unnt er að fara fram á undanþágu og undanþiggja af rökstuddum ástæðum. Og það er meira að segja vilji fyrir hendi hjá Evrópusambandinu. Miðað við yfirlýsingar fulltrúa þeirra og miðað við yfirlýsingar EFTA-landanna, Liechtensteins og Noregs, er líka vilji þar að sýna Íslandi, sem er svo fjarlægt og ótengt, fullan skilning á að fá undanþágu frá reglunum.