149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður hefur komið með yfirgripsmiklum hætti inn á það hversu þeir fyrirvarar sem lagðir eru fyrir í málinu eru haldlitlir þegar kemur að því að regluverkið hafi verið innleitt með hefðbundnum hætti, eins og tilkynnt hefur verið að verði gert með reglugerðir 913 og 914. Og síðan þá áhrifin sem af því munu hljótast þegar sæstrengur, hvenær sem sú framkvæmd kemur til, verður lagður og hvað áhrifin þá verða af pakkanum, innleiddum, að teknu tilliti til þess að þá virkjast öll ákvæðin og sú frestun sem verður á vandamálum er snúa að hinum stjórnskipulegu álitaefnum. Þá í rauninni þarf að takast á við þau öll.

Mig langar til að biðja hv. þingmann að fara kannski örlítið dýpra í hvenær stjórnskipulegu álitaefnin, sem er frestað með núverandi nálgun, koma upp? Svarið — ég er að leiða að öðru með því — er auðvitað við lagningu sæstrengs, en hvenær þau koma upp og í hvaða samhengi þau setja þá þriðja orkupakkann og innleiðingu hans miðað við það ef við gæfum okkur að sæstrengur yrði (Forseti hringir.) lagður núna strax samhliða samþykkt (Forseti hringir.) orkupakkans?