149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:28]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir spurninguna. Þetta var mjög athyglisverð og áhugaverð spurning sem hann bar hérna upp. Ég get nú alls ekki í andsvari svarað því í stuttu máli og myndi frekar vilja halda sérstaka ræðu um það, en vil þó svara hv. þingmanni þegar hann segir að farið hafi verið yfir þessa lagalegu fyrirvara og að þeir séu haldlitlir. Ég er hreint ekki, heiðarlega sagt, viss um að ég hafi fengið upplýsingar um hvar þessa fyrirvara er að finna, þessa lagalegu fyrirvara sem ríkisstjórnin er að kynna, að þetta verði innleitt með lagalegum fyrirvara, svona í eintölu.

Síðan höfum við fengið að hlusta á þingmenn, ekki nýlega, en á fyrstu stigum málsins, benda á þessa fyrirvara. Þeir hafa komið nokkrir og bent á þá, en þeir hafa ekki bent á sama fyrirvarann, þeir hafa bent í allar áttir. Við erum búin að fá a.m.k. fimm útgáfur af því hvar lagalega fyrirvarann sé að finna. Þegar hv. þingmaður segir að búið sé að fara yfir þá og að þeir séu haldlitlir, þá er bara hálf sagan sögð náttúrlega vegna þess að við höfum ekki hugmynd um hvort við séum að deila á þann rétta lagalega fyrirvara sem ríkisstjórnin telur vera. Þingmenn hafa ekki getað bent á hann, þeir hafa bent í allar áttir.

Við höfum tekið allt sem þeir hafa nefnt og rökrætt það hér. Það er auðvitað ekkert hald í þeim sem við höfum upplýsingar um sem þeir telja vera lagalega fyrirvara, eins og reglugerð sem nýlega var bent á; reglugerð gefin út hérna uppi í Skuggahverfi af einum ráðherra í ríkisstjórn Íslands, að það sé hinn lagalegi fyrirvari. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum þegar ég heyrði þetta. (Forseti hringir.) Ég trúi því bara ekki að það sé hinn lagalegi fyrirvari. Því að það er auðvitað ekkert hald í reglugerð.