149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil í þessari ræðu minni víkja aðeins að sveitarfélögunum og áhrif þessa máls á þau.

Það er athyglisvert að grípa niður í grein sem Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, skrifaði fyrir skömmu. Ég ætla að leyfa mér að vitna aðeins í hana. Með leyfi forseta, segir Guðjón að stefnuleysi í orkumálum landsins og óskýrt lagaumhverfi sé meðal þess sem geti torveldað sveitarfélögum að takast á við nýjar áskoranir í vindorkunýtingu.

Það er ljóst að það er mikill áhugi á vindorkunýtingu. Það eru áform um að reisa vindmyllugarða. Erlendir fjárfestar hafa áhuga á því.

Guðjón segir jafnframt, með leyfi forseta:

„… mikilvægt er að vandað verði til allrar ákvarðanatöku, svo sem varðandi sjónræn áhrif, hljóðmengun og áhrif á fuglalíf, auk þess sem finna verði vindorkuverum hentuga staði í landslagi.“

Þess vegna finnst mér svolítið einkennilegt að umhverfisráðherra skuli ekki hafa komið neitt inn í þessa umræðu vegna þess að það er alveg ljóst að þeir aðilar sem stefna á slíka uppbyggingu munu tengjast þessu máli, þ.e. innleiðingu orkupakkans, þannig að þeir horfa til þess að héðan verði seld orka til Evrópu.

Þetta kemur þannig út að umhverfissjónarmiðum virðist ekki vera gert nægilega hátt undir höfði í þessari umræðu. Það er eins og helstu umhverfissamtökin séu bara þögul þegar kemur að þriðja orkupakkanum, sem vekur ýmsar spurningar. Það er spurning hvort þau séu ekki nægilega vel upplýst um það sem fram undan er og auðvitað eiga þau að vera þátttakendur í umræðunni með miklu virkari hætti.

Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, kveður fastar að orði þegar hann segir að stefnuleysið virðist einkenna umræðuna um orkumál hér á landi. Það birtist m.a. í því að ekki liggi fyrir skýr afstaða af hálfu stjórnvalda varðandi hugmyndir um sæstreng til Evrópu og áhrif þess á orkuframleiðslu hér á landi.

— Það er alveg laukrétt, það verður að fara að mynda hér einhverja stefnu í þessum málaflokki.

Er ekki verið að byrja á öfugum enda, herra forseti, þegar verið er að opna fyrir þessa leið með innleiðingunni? Það er alveg ljóst að það ríkir stefnuleysi í málaflokknum.

Ég held að það verði að huga vandlega að þessu vegna þess að það er mikið í húfi. Hér kaupa fjárfestar upp landsvæði. Mikill áhugi er á því að reisa svokallaðar smærri virkjanir undir 10 MW sem þurfa ekki að fara í umhverfismat.

Það eru því umhverfisleg áhrif undir í þessu máli og það er alveg ljóst að það verður að vanda sig mun betur. Þess vegna höfum við lagt áherslu á það, Miðflokksmenn, að fresta þessu máli, herra forseti, a.m.k. fram á haust til þess að fá betri yfirsýn yfir það hvaða áhrif (Forseti hringir.) þetta mun hafa t.d. á umhverfið og umhverfismál.