149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það voru sannarlega þýðingarmikil sjónarmið sem hv. þingmaður reifaði í sinni ágætu ræðu. En mig langar til að láta þess getið svona til upplýsingar að fyrir nokkrum vikum lagði ég fram fyrirspurn til skriflegs svars. Fyrirspurninni er beint til hæstv. iðnaðarráðherra og lýtur að því að fá upplýsingar um sum af þeim atriðum sem hv. þingmaður gat um í sinni ræðu. Þarna er spurt um rannsóknarleyfi sem gefin hafa verið út af hálfu Orkustofnunar á tilteknu árabili og virkjunarleyfi, bæði vegna vatnsaflsvirkjana og vindorkuvirkjana. Ég vænti góðs af því í þessu sambandi að það berist glögg svör og greiðlega. Ég tel að þetta sé mjög þýðingarmikið mál.

Hv. þingmaður nefndi skipulagsleysi og maður veltir því fyrir sér í ljósi þeirra tíðinda sem nú eru farin að berast alltítt að hvers kyns aðilar, erlendir aðilar, séu að kaupa upp dali og firði og séu með einhverjum hætti að setja sig í aðstöðu til að geta staðið hér að orkuframleiðslu, hugsanlega líka í ljósi þeirrar meginreglu, ef til vill ekki án undantekninga, að virkjanir af þessari stærð þurfi ekki að sæta umhverfismati. Þetta er mikið áhyggjuefni verð ég að segja, herra forseti.