149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tek undir að það er náttúrlega ástæða fyrir því að umsóknum um virkjanir undir 10 MW fjölgar svona mikið. Þær þurfa ekki lögum samkvæmt að fara í umhverfismat. En þó vil ég taka fram að ég ætla alls ekki öllum sem sækja um þessi leyfi að þeir séu eingöngu að hugsa um að hér verði í framtíðinni tækifæri til að flytja orkuna alla út.

Ég nefni sem dæmi að í Bláskógabyggð standa nú yfir framkvæmdir við virkjun sem er undir 10 MW. Þetta er rennslisvirkjun sem þurfti ekki að fara í umhverfismat. HS Orka stendur að þessum framkvæmdum ásamt landeigendum. Þessi tiltekna framkvæmd þurfti ekki að fara í umhverfismat en engu að síður fóru framkvæmdaraðilar fram á að það yrði gert, sem sýnir að vel er að þessu verkefni staðið. Umhverfisáhrif eru hverfandi og mér skilst að þær athugasemdir sem bárust í þessu ferli séu mjög fáar og aldrei hafi borist eins fáar athugasemdir við framkvæmdir af þessu tagi. Þannig að það eru vissulega aðilar sem gera þessa hluti vel.

Það sem er kannski ánægjulegast við þetta ákveðna verkefni, sem mér finnst nauðsynlegt að minnast á hér, er að orkan sem verður framleidd þarna verður nýtt á staðnum í gróðurhús o.s.frv. Hugmyndin er að nýta orkuna (Forseti hringir.) á staðnum. Það er náttúrlega lykillinn að þessu öllu saman, að við gerum það, en við förum ekki að selja hana úr landi.