149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:42]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er áhugavert dæmi sem hann nefnir og ánægjulegt hversu vel er að málum staðið og hversu mikla ábyrgð menn sýna með því að hafa sjálfstætt frumkvæði að því að kalla eftir umhverfismati. Það er ánægjulegt.

Í því samhengi sem við ræðum þetta mál núna í tengslum við þriðja orkupakkann sem svo er nefndur, þar sem uppi eru hugmyndir um a.m.k. lagaumgjörð vegna hugsanlegs sæstrengs, þá hefur málið auðvitað þýðingu í því ljósi að safnast þegar saman kemur. Það þarf ekki nema tíu virkjanir með 10 MW uppsettu afli til að vera kominn með 100 MW ef menn eru á þeim buxunum. Og síðan er náttúrlega spurning hvort með innleiðingu orkupakkans verði nokkrar varnir fyrir ef hér eru aðilar í þessum tilgangi, hugsanlega af erlendum uppruna, að safna sér saman virkjunarkostum af þessu tagi og hugsanlega rekandi þá framan í stjórnvöld hér einhverjar kröfur sem gætu stofnast til að þessum orkupakka samþykktum.

Reyndar er þetta mál ekki nægilega vel rannsakað í öllu tilliti. Það er dálítið einkenni í þessu máli að það skortir mjög á að það sé nægilega vel upplýst. Það vantar rannsóknir í þessu máli á fjölmörgum sviðum og eitt af því er að umhverfisáhrif af þessum orkupakka eru órannsökuð. Ég vísa til umsagnar til að mynda Hjörleifs Guttormssonar sem liggur fyrir þinginu.