149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við höfum mikið verið fjalla í þessari umræðu um hvernig þetta mál hefur verið lagt upp. Það hefur verið lagt upp með þeim hætti að til þess að óhætt væri að samþykkja orkupakkann þyrfti að vera hér lagalegur fyrirvari. Eða kannski má snúa þessu við og segja: Sagt er að óhætt sé að samþykkja orkupakkann vegna þess að honum fylgi lagalegur fyrirvari. Eins og menn þekkja af umræðum er enn óvíst hvar þessi lagalegi fyrirvari er. Nú stendur yfir leit að honum. Einn úr þingflokki okkar, með reynslu af lögreglustörfum, hefur lagt sig eftir því máli og kemur hér af og til og flytur áfangaskýrslur.

Það er kannski rétt, herra forseti, að líta mjög stuttlega á það lagalega umhverfi sem við er að eiga hérna.

Ég ætla að leyfa mér að vitna örstutt á tveimur stöðum, eftir því sem tími hrekkur, í rit Davíðs Þórs Björgvinssonar, EES-rétt og landsrétt. Hann segir á blaðsíðu 88:

„Af hálfu EFTA-ríkjanna, einkum þeirra norrænu, var sú leið ekki talin fær að reglugerðir“ — við erum að tala hér um reglugerðir 713 og 714 — „fengju beinlæg áhrif, m.a. vegna þess að það fæli í sér framsal lagasetningarvalds sem færi gegn stjórnarskrám þeirra. Þess vegna er við það miðað að þessu markmiði verði náð með þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í a-lið 7. gr. laganna um Evrópska efnahagssvæðið.“ — 7. gr. er náttúrlega mjög þýðingarmikil grein.

Með leyfi forseta, segir hér áfram:

„Samkvæmt því ákvæði“ [þ.e. 7. gr.] „skulu þær reglugerðir teknar í heild upp í landsrétt. Aðferðin er þannig að reglugerð er lögfest sem fylgiskjal með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum“, segir Davíð Þór.

Hann nefnir dæmi um lögfestingu reglugerða með lögum en tekur fram að önnur aðferð sé að innleiða reglugerðir með stjórnvaldsfyrirmælum. Þá fylgja þessar reglugerðir með sem fylgiskjöl. Þetta þekkja menn.

En það er líka rétt að líta eilítið nánar á það segir á blaðsíðu 101 í kafla sem heitir „Bókun 35 og 3. gr. laganna um Evrópska efnahagssvæðið“:

„Við gerð EES-samningsins var af hálfu bandalagsins lögð áhersla á að tryggja yrði EES-reglum forgangsáhrif fram yfir landsrétt EFTA-ríkjanna með sama hætti og reglur EB réttar hafa forgangsáhrif gagnvart ákvæðum landsréttar aðildarríkja sambandsins, sem kunna að vera þeim ósamrýmanleg. Þetta var talið nauðsynlegt til að veita EES-reglum sömu stöðu og hliðstæðar reglur hafa í rétti aðildarríkja sambandsins og stuðla þar með að samræmdri framkvæmd og beitingu sameiginlegra reglna á öllum efnahagssvæðum.“

Þarna segir áfram, ég vitna í bókun 35 sem er í heild þannig:

„Þar eð með samningi þessum er stefnt að einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum, án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins; og þar eð þessum markmiðum verður því að ná með þeirri málsmeðferð sem gildir í hverju landi um sig. Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmda og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“

Herra forseti. Þetta er hin mikilvæga bókun 35, sem full ástæða væri að ræða hérna miklu nánar.