149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:53]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir afar áhugaverða og upplýsandi ræðu. Nú veit ég að hv. þingmaður, dr. Ólafur Ísleifsson, veit sitthvað þegar kemur að lestri bóka og hvernig skuli nálgast fræði. Hann vitnar í títtnefndan Davíð, höfund bókarinnar, og hvernig hann nálgast hina lögfræðilegu aðferð varðandi það að innleiða reglugerðir og hvaða áhrif það hefur svo í landsrétt og gagnvart þjóðarétti. Tilvitnun í 7. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í lögum nr. 2/1993, hljóðar svo:

„Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir:

a. gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila;

b. gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.“

Er svo að skilja að ekki sé hægt við upptöku tilskipunar eða reglugerðar að gera í sama mund fyrirvara í reglugerð í landsrétti við að viðkomandi tilskipun eða reglugerð Evrópusambandsins öðlist gildi að þjóðarétti?