149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það var nákvæmlega þetta sem ég vildi draga fram með minni ræðu þótt stutt væri. Við erum hér í rammgerðu lagalegu umhverfi sem lýtur sínum eigin reglum og lögmálum. Einstakar greinar eiga sér skýringar m.a. af sögulegum toga eins og ég leitaðist við að draga fram. Og það er nákvæmlega svo, eins og hv. þingmaður áttaði sig greinilega á, að hér er til umræðu innleiðing á mjög stóru máli með mjög miklum afleiðingum eins og er rakið í þeim álitsgerðum sem fyrir liggja og ekki síst í álitsgerð Friðriks Árna og Stefáns Más sem oftast eru nefndir. Því er haldið fram hér að þetta sé nú allt saman óhætt vegna þess að það sé lagalegur fyrirvari. En þá hvílir á þeim aðilum, sem halda slíku fram, sönnunarbyrði um að sá lagalegi fyrirvari dugi, hafi þá verkan sem haldið er fram.

Í fyrsta lagi vaknar spurning um hvert sé þjóðréttarlegt gildi slíks fyrirvara. Eins og margoft hefur verið nefnt þá stendur yfir leit að þessum fyrirvara. Það var spurt um hann 15. maí sl. upp úr klukkan fjögur. Þá var formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins spurður hvort hann hefði séð þennan fyrirvara. Hann kannaðist ekki við það. Síðan hefur verið varpað fram fjölmörgum fullyrðingum um það hvar fyrirvarans sé að leita. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason er búinn að rannsaka þetta og hefur lýst niðurstöðum sínum á þann veg að enginn þessara fyrirvara myndi hafa nokkurt gildi að þjóðarétti. (Forseti hringir.) En sönnunarbyrðin er ekki hans eða okkar heldur þeirra um að slíkt skjal hafi eitthvert gildi.