149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:57]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann minntist á að sú skylda hvíli á þeim hv. þingmönnum sem halda því fram að hér sé lagalegur fyrirvari sem haldi vatni að sanna mál sitt og sýna fram á það svo ekki verði um villst. Það er hliðstætt mál sem er í meðförum þingsins og bíður afgreiðslu, hráakjötsmálið, sem fjallar nákvæmlega um þetta, að innleiðingin var röng. Við töldum okkur hafa fyrirvara sem hélt svo bara ekki vatni. Og hvað kostaði það skattborgarana? 3 milljarða, herra forseti. Þó er sú fjárhæð smotterí eitt hjá því tjóni sem innleiðing sem yrði rangt útfærð kynni að baka okkur þegar kemur að orkumálum og þeim upphæðum sem um þar er að spila.

Hv. þingmaður nefndi hv. þm. Birgi Ármannsson og ræðu hans 15. maí sl., þar sem hann lagði út af því að það lægi fyrir að innleiðing þessara reglugerða og ákvæða yrði gerð með hefðbundnum hætti. Hefðbundnum hætti sagði hann og er nú ekki nýgræðingur í þingstörfum. Þetta þýðir einfaldlega að reglugerðin verður innleidd að fullu. Og ef það á að innleiða hana að fullu er þá ekki heiðarlegra að segja það við þjóðina berum orðum að hér verði orkupakki þrjú innleiddur, punktur? Hér verði enginn fyrirvari og hér verði ekkert sem geti kallast ef að sé og ef að myndi 18 lappir á einum hundi.