149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var mjög áhugaverð og ljóst að hv. þingmaður hefur sett sig afar vel inn í lögfræðilegar álitsgerðir þeirra sérfræðinga sem leitað hefur verið til og sérstaklega hefur hv. þingmaður sett sig inn í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, sem hafa oft verið nefndir í þessari umræðu og er það vel. En það er nauðsynlegt að þingmenn setji sig vel inn í slíkar álitsgerðir því að þær skipta sköpum og hefur oft verið vitnað til þeirra.

Það sem ég vildi kannski koma inn á í þessu sambandi er að haft er eftir öðrum þessara sérfræðinga eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Færa má rök fyrir því að meiri lagaleg óvissa felist í þeirri leið sem ríkisstjórnin hyggst fara varðandi innleiðingu á þriðja orkupakka Evrópusambandsins en því ef Alþingi hafnaði því að samþykkja orkupakkann með því að aflétta ekki stjórnskipulegum fyrirvara vegna hans.“

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann í þessu sambandi er, af því að hann hefur mjög góða þekkingu á þessum álitsgerðum eins og ég nefndi: Hvað telur hv. þingmaður að valdi því að ríkisstjórnin velji þessa leið, sem verður að teljast undarlegt, vegna þess að hún felur í sér meiri óvissu? Er það hræðslan við það að samningurinn verði í uppnámi? Eða hvað telur þingmaðurinn líklegast að sé ástæðan?