149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek heils hugar undir með honum hvað það varðar að ríkisstjórnin verður auðvitað að gera grein fyrir því hvers vegna þessi leið er valin. Það sætir undrun að það skuli ekki liggja alveg ljóst fyrir hvers vegna verið sé að velja næstbestu leiðina. Það er ekki verið að velja bestu leiðina. Það er mjög sérstakt.

Þegar ríkisvaldið býður út framkvæmdir, sem dæmi, þá er lægsta og væntanlega besta tilboðinu tekið vegna þess að það er hagkvæmast fyrir ríkissjóð. Í þessu tilfelli hlýtur það að vera best fyrir ríkissjóð að taka bestu lausnina. En einhverra hluta vegna hugnast ríkisstjórninni ekki sú leið. En það hafa ekki verið færð rök fyrir því.

Mér finnst það mjög áhugavert sem hv. þingmaður segir að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki hafa rökstutt þetta, formaður utanríkismálanefndar ekki heldur. Það eitt og sér vekur upp spurningar sem eru óþægilegar. Er þá ekki bara verið að auka á óvissuna sem þessi vegferð getur haft í för með sér með ófyrirsjáanlegum afleiðingum? Við vitum ekkert hvar sú vegferð endar.