149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Mig langar til, herra forseti, að grípa boltann á lofti þar sem hv. þm. Bergþór Ólason skildi við hann, þ.e. um varfærni, eins og hefur t.d. einkennt skrif Tómasar Inga Olrichs, og hvatningu til þess að menn sýni eðlilega aðgát og varúð, ekki síst í máli af þessari stærð.

Það lögfræðiálit sem hefur sérstakt vægi — öll eru þau mjög góð sem liggja hér fyrir, enda gerð af vönduðustu og bestu mönnum — en það álit sem hefur sérstakt vægi er álit þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, enda eru í því lagðar línurnar um þær tvær leiðir sem síðan hafa orðið tilefni mikilla umræðna.

Ég ætla að leyfa mér að segja, herra forseti, að úr þeirri fjarlægð sem þessi mál eru að sjálfsögðu litin, verandi handan við stjórnarlínuna, þá hlýtur álit þeirra Stefáns og Friðriks Árna hafa verið ríkisstjórninni alvarlegt áfall þegar það kemur fyrst, vegna þess hvað afleiðingarnar af innleiðingunni eru skýrt orðaðar varðandi ítök erlendra aðila í skipulag og ráðstöfun orkuauðlinda þjóðarinnar. Þeir eru greinilega beðnir um að endurskoða það að einhverju leyti. Þetta sést af sjötta kaflanum. En þeir standa fastir á sínu og halda sig við það sem er þeirra aðaltillaga, að farið verði með málið fyrir sameiginlegu nefndina. Og hægt er að rekja þetta lengur. Ég mun kannski gera það fái ég tækifæri til.