149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Staðan er þessi: Ríkisstjórnin fær lögfræðiálit færustu manna. Sumir segja að þetta sé óhætt í stjórnskipunarlegu tilliti. En það kemur mjög ítarlegt álit þar sem það er tvítekið í álitinu að minnsta kosti, að það sé niðurstaða höfunda að þeir telji verulegan vafa. Í svona plöggum er náttúrlega hvert orð gaumgæft af höfundum og það er ekki sagt út í bláinn þegar talað er um verulegan vafa. Það er til áherslu. Sömuleiðis er í þeirri álitsgerð farið yfir afleiðingar af innleiðingu þessara gerða. Þær eru þessar sem ég sagði: Ítök erlendra aðila varðandi skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda íslensku þjóðarinnar. En höfundar hafa haldið sig við megintillögu sína, bæði í lokagerð álitsins og sömuleiðis í bréfi til utanríkisráðherra, sem er dagsett 10. apríl sl. Þeir hafa ekki hvikað.