149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:23]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ræðuna. Það var áhugavert að hlusta á orðaskipti hv. þm. Bergþórs Ólasonar og hv. þm. Ólafs Ísleifssonar um þetta mál. Á meðan ég hlustaði á þingmennina ræða það kom upp í huga mér orðatiltæki eða tilvísun sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Bonus pater familias“, eða, eins og það hefur verið útlagt á íslensku í lögskýringum; hinn góði og gegni fjölskyldufaðir.

Það er lýsing á manni og er gjarnan notað í lagatexta um hvernig maður ætti að haga sér þegar kemur að almennri hegðun eða umgengni um samninga: Hvað myndi hinn góði og gegni fjölskyldufaðir gera í slíkum aðstæðum? Þá er verið að tala um hinn varfærna mann, mann sem á fjölskyldu og á því talsvert mikið undir.

Væri það til of mikils mælst af hinum góða og gegna fjölskylduföður í máli sem þessu að hann myndi kanna alla mögulega fleti á málinu og reyna að komast að niðurstöðu sem þjónaði fjölskyldunni sem best, þ.e. Íslandi í þessu tilfelli? Mig langar til að fá hugleiðingar hv. þingmanns um það atriði í þessu máli.