149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er mjög fróðlegt að fara í gegnum umsagnir sem bárust utanríkismálanefnd varðandi þetta mál. Ég hef áður vitnað í umsögn eftir fyrrverandi utanríkisráðherra Jón Baldvin Hannibalsson. En ég vil víkja að einu sem ég hef ekki áður minnst á í umsögn hans. Fyrrverandi ráðherra Jón Baldvin setur þessa umsögn vel upp og spyr spurninga. Hann takmarkar umsögn sína við svör við spurningum sem hann setur fram. Hér er spurning sem hann varpar fram, með leyfi forseta:

„Mun höfnun á lögleiðingu orkupakka 3 […] setja EES-samninginn í uppnám? Stutta svarið við því er nei. Hins vegar verða að teljast verulegar líkur“ — ég endurtek, verulegar líkur — „á því, að ótímabær lögleiðing orkupakka 3 og ófyrirséðar og óhagstæðar afleiðingar, öndverðar íslenskum þjóðarhagsmunum, muni grafa undan trausti á og efla andstöðu með þjóðinni við EES-samninginn, eins og reynslan sýnir frá Noregi. Þegar af þeirri ástæðu er óráðlegt að flana að fyrirhugaðri löggjöf nú.“

Þetta er mjög vel rökstutt hjá fyrrverandi utanríkisráðherra.

Það sem mig langaði að fá fram frá hv. þingmanni hvað þetta varðar og hans álit á þessu er einmitt hvort þetta sé ekki kjarni málsins, (Forseti hringir.) þetta verði til þess að EES-samningurinn verði í uppnámi eins og ríkisstjórnin orðar það.