149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Ég tel að menn þurfi að átta sig á því, og það er alveg orðið ljóst í mínum huga eins og ég ræddi áðan, að ríkisstjórnin verður fyrir áfalli við að fá í hendur niðurstöður Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, þar sem þeir segja ítrekað varðandi stjórnarskrárþáttinn að verulegur vafi sé á að þetta mál, innleiðingin á þessum orkupakka, standist stjórnarskrá, og um afleiðingar þess að innleiða orkupakkann segja þeir að erlendir aðilar fái, eins og þeir orða það, a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar.

Þegar ríkisstjórnin var í þessari stöðu, að hafa fengið þetta álit, þá blasir það við úr álitinu að hún tekur upp einhvers konar viðræður við höfunda. Þær viðræður endurspeglast í 6. kafla álitsins. Og 6. kafli álitsins er heimild um það atriði. Síðan kemur álitið og það er þá með þessum tveimur leiðum, megintillögu og svo einhverju sem heitir „leið með lagalegum fyrirvara“, hún hefur bersýnilega orðið til þarna á seinni stigum. Síðan er greinilegt að þeir fá einhvers konar hvatningu, eða maður veit ekki hvað. Alla vega finna þeir sig knúna til að rita bréf 10. apríl og í því bréfi staðfesta þeir ljóslega að megintillaga þeirra sé að fara með málið fyrir hina sameiginlegu nefnd.