149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:46]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir andsvarið. Já, þeir komast að þeirri niðurstöðu, félagarnir, í álitsgerð sinni, sem lögð er fyrir hv. utanríkismálanefnd, og ítreka svo aftur í þessu bréfi að þetta sé hin lagalega rétta leið. Eitt af því sem hefur komið fram í málflutningi stjórnarliða er að EES-samstarfið geti allt verið í upplausn og það geti hreinlega orsakað brottvísun okkar úr því samstarfi ef við ákveðum að fara þessa leið. Þeir byggja það á pólitísku áliti, en ekki lagalegu, Carls Baudenbachers en skauta fram hjá því að í álitinu segir hann, um þann ágreining sem hafi verið viðraður í sameiginlegu EES-nefndinni og að Íslendingar hafi haft áhyggjur af þessari andstöðu við orkupakkann, að það sé vel fær leið að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar til að reyna að semja um aðra eða breytta niðurstöðu til handa Íslandi. Það er svolítið athyglisvert.

Á þeim skamma tíma sem var til að vinna málið, og með þeim stutta fyrirvara sem það var gert, virðast menn einhverra hluta vegna hafa leitað að ástæðum eða rökum til þess að fara lakari leiðina. Ég verð að segja hv. þingmaður: Ég skil ekki af hverju svo var gert.