149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins halda áfram að fara í gegnum álitsgerð fyrrverandi utanríkisráðherra Jóns Baldvins Hannibalssonar sem er að mörgu leyti mjög góð umsögn fyrir utanríkismálanefnd. Hann víkur að því að hrein og endurnýjanleg orka verði æ verðmætari þegar fram líða stundir vegna alþjóðlegra skuldbindinga í loftslagsmálum. Síðan segir hann, með leyfi forseta:

„Íslenskum stjórnvöldum ber því skylda til að móta framtíðarstefnu um stjórnun, nýtingu og dreifingu þessarar verðmætu orku, þannig að ýtrustu þjóðarhagsmuna og hagsmuna neytenda sé gætt. Þetta ber að gera áður en lengra er haldið.“

Þetta segir fyrrum utanríkisráðherra sem þekkir manna best EES-samninginn eins og við vitum, kom að gerð hans á sínum tíma og auðvitað eigum við að hlusta á mann sem hefur svona yfirgripsmikla þekkingu á samningnum og framkvæmd hans.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann að er: Er þetta ekki eitthvað sem við ættum að bera á borð fyrir sameiginlegu EES-nefndina? Við séum ekki tilbúin til að innleiða þessa tilskipun, m.a. á þeim forsendum að við verðum að móta okkur framtíðarstefnu, það höfum við ekki gert, um stjórnun, nýtingu og dreifingu þessarar verðmætu orku, framtíðarstefnu þar sem þjóðin sjálf fær að koma að mótun hennar.