149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:53]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Ég skil það sem svo að hinn íslenski faðir samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, Jón Baldvin Hannibalsson og fyrrverandi ráðherra utanríkismála, sé þarna að kalla eftir því að íslenska ríkið dragi það ekki lengur að móta orkustefnu og auðlindastefnu og festa það í landsrétt. Hugsanlega er hann að ýja að því að það ætti jafnvel að vera bundið í stjórnarskrá án þess að ég ætli að fullyrða það. Hann leggur þetta til vegna þess að hann þekkir hvað stendur í tilskipuninni þegar hann veitir umsögn sína. Í a-lið 36. gr. tilskipunar nr. 72/2009, um almenn markmið eftirlitsyfirvalds, segir:

„Að efla, í nánu samstarfi við stofnunina, eftirlitsyfirvöld annarra aðildarríkja og framkvæmdastjórnina, samkeppnishæfan, öruggan og umhverfislega sjálfbæran innri markað fyrir raforku í bandalaginu, og skilvirkan markaðsaðgang fyrir alla viðskiptavini og birgja í bandalaginu og tryggja viðeigandi skilyrði fyrir skilvirka og áreiðanlegra starfrækslu raforkuneta, að teknu tilliti til langtímamarkmiða.“

Þetta langtímamarkmið Evrópubandalagsins er að tengja öll lönd Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópubandalagsins yfir landamæri og innan landamæra og samþætta kerfið þannig að hin hreina orka geti flætt óhindrað.