149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Einn af þeim ágætu mönnum sem goldið hefur varhuga við því hvernig þriðji orkupakkinn er tekinn upp hér á landi — og þeir eru allmargir, m.a. allnokkrir Sjálfstæðismenn — er Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. Hann hefur skrifað nokkrar greinar undanfarið þar sem hann varar við því hvernig ríkisstjórnin fer fram og hefur varað við því hvernig þessi innleiðing á að fara fram. Hann segir í grein í Morgunblaðinu frá því 7. maí sl., með leyfi forseta:

„Umræður um hinn umdeilda þriðja orkupakka eru harðar. Af hálfu margra þeirra, sem standa gegn innleiðingu pakkans eftir þeirri leið sem stjórnvöld hafa ákveðið að fylgja, gætir mikillar tortryggni. Hún beinist að ESB og stöðu Íslands gagnvart bandalaginu. Að sjálfsögðu er þessi tortryggni ekki án tengsla við þróun Evrópusambandsins frá þeim tíma er Ísland gerðist aðili að fjórfrelsinu. Ferill sambandsins á því tímabili er skrautlegur og hefur reynst mörgum skaðlegur, innan ESB og EES. Af hálfu þeirra sem vilja standa að innleiðingunni með stjórnvöldum eru menn missannfærðir. Hluti þess liðs vill inngöngu í ESB og skeytir því ekki hvort sambandið er laskað eða ekki. Meðal þeirra stuðningsmanna þriðja orkupakkans sem eftir standa hefur orðið vart við óöryggi sem nær jafnvel inn í ríkisstjórnina.

Það virtist — alla vega um tíma — ekki vera fyllilega ljóst innan ríkisstjórnarinnar, hvort lýðveldið hefði rétt til að ákveða hvort lagður yrði sæstrengur til Íslands. Sá ráðherra sem fer með orkumál hefur lýst því yfir að ekki sé útilokað að grunnreglur EES-samningsins um frjálst vöruflæði geri það að verkum „að óheimilt sé að leggja fortakslaust bann við lagningu strengs (til Íslands)“. Ráðherrann var ekki viss en bætti því við „sé það raunin er sú staða uppi nú þegar, hefur verið það frá því að EES-samningurinn var samþykktur fyrir um aldarfjórðungi, og er með öllu ótengt þriðja orkupakkanum.““

Áfram segir Tómas Ingi, með leyfi forseta:

„Ég hef vakið athygli á þessum vangaveltum og hefur þeim ekki verið mótmælt. Lögfræðingar hlynntir þriðja orkupakkanum hafa staðfest að það sé með öllu óheimilt að setja reglur sem banna fyrirtækjum eða ríkjum aðgang að íslenskri orku.“

Þetta eru athyglisverð orð, herra forseti. Með þessu er Tómas Ingi Olrich að segja að við verðum ekki spurð hvort hingað verði lagður sæstrengur eða ekki. Hann segir að í raun hafi hæstv. iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra játað þessu eða ekki mótmælt því. Þetta sýnir kannski enn einu sinni hversu mikilvægt það er að ráðherrar, þeir sem eiga að stjórna þessari innleiðingu, séu viðstaddir nú þegar þetta mál er rætt hér í þessum sal. En það hefur ekki orðið þrátt fyrir þrábeiðni þar um.

Ég get ekki annað en lýst hér áhyggjum mínum af því hvernig þetta mál er reifað. Það virðist sem ríkisstjórnin og einstakir ráðherrar kæri sig ekki um að hlusta á nokkurn einasta mann nema þá helst sérfræðinga sem nánast hafa verið handvaldir. Og nú skulum við hafa í huga að fyrir nefndina, t.d. utanríkismálanefnd, komu ekki nema þeir sem voru nánast þóknanlegir, því það var langur listi, óútfylltur, sem hafði ekki fengið að koma fyrir nefndina þegar málinu var kippt út úr nefnd og sagt: Nú erum við hætt. Við þurfum ekki meira.

Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli taka þessa áhættu sem hún er greinilega að taka og, eins og ég segi, virða að vettugi orð manna eins og Tómasar Inga Olrichs.