149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er eitt dæmi af mörgum um það hvernig einstakir stjórnarþingmenn virðast hafa snúist á punktinum, eins og maður segir, í afstöðu sinni. Það er víst einnig, og það hef ég haft uppi efasemdir um og sagt hér nokkrum sinnum í þessum ræðustól, að menn virðast ekki alveg vita hvert verið er að stefna, samanber umræðu sem varð hér í síðustu viku um stóraukna framleiðslu grænmetisbænda og að nýta orku í meira mæli til þess og jafnvel niðurgreiða hana meira en við höfum gert til að gera bændum kleift að framleiða meira grænmeti. Það stóð upp úr hverjum manni sem kom hér í pontu að þetta þyrfti að gera, að þetta væri nauðsynlegt og þetta væri gott. Og auðvitað er það það.

Þeir bara gleymdu, þessir ágætu þingmenn, að taka með inn í þessa jöfnu að þeir eru líka að leggja til innleiðingu á orkupakka þrjú frá Evrópusambandinu, sem segir okkur að við getum ekki gert nokkurn skapaðan hlut í því að lækka verð á raforku til grænmetisbænda að þessum pakka samþykktum, þó að við myndum vilja það. Við höfum einfaldlega ekkert um það að segja. Þá verður komin hér krafa um aukna samkeppni o.s.frv. þannig að við ráðum þessu ekki. Fyrir utan það að að þessum pakka samþykktum verður verðið miklu hærra á raforku. Það er á sama tíma og talað er um þetta með grænmetið, í öðru lagi orkuskipti, bifreiðar o.s.frv. Stundum er talað um að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir og ég held að þetta sé klárasta dæmið um það sem ég hef orðið var við og upplifað mjög lengi.