149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Hér var rætt um sinnaskipti hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés. Ár er síðan, eða þar um bil, haft var viðtal við hann í RÚV og hann segir þar, með leyfi forseta:

„„Sjálfur geri ég marga og mikla fyrirvara við þetta. Ekki endilega bara innihald þessa þriðja orkupakka Evrópusambandsins heldur hvert við stefnum í raun og veru í þessu samevrópska orkukerfi í heild sinni.“

Hann segir að þingmenn verði að setjast yfir málið. Ekki sé hægt að ætlast til þess að þingið afgreiði það án þess að fara ítarlega yfir það.“

Nú eru ein stjórnmálasamtök á Alþingi að fara ítarlega yfir þetta mál, eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé ráðlagði fyrir ári síðan, og það er allt að fara á límingunum af því að þetta stjórnmálaafl vill fara gaumgæfilega yfir þennan samning og mönnum eru valin hin verstu orð út af því.

En hvað Framsóknarflokkinn varðar talaði formaður þess flokks sig að niðurstöðu vegna þess að um hálfum mánuði, þrem vikum síðar, eftir að hann skrifaði þessa grein um páskana eða þar um bil, kom önnur grein sem var allt öðruvísi og þá voru menn búnir að kyngja beitunni alveg með sökku og öllu. Og það var ekki að ófyrirsynju að hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kæmi fram með svohljóðandi yfirlýsingu:

„Niðurstaða mín er sú að við höfum búið þannig um hnútana í þessu máli að fyrirvarar muni örugglega halda. Við erum í raun ekki bara komin með belti og axlabönd eins og við í Framsóknarflokknum höfum lagt mikla áherslu á frá upphafi, heldur erum við komin með, ja, hvað skal segja, álímdan hártopp, smekkbuxur og nýja skó.“