149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta andsvar. Hér kemur fram ein þversögnin enn. Þær eru orðnar margar í þessu máli.

Menn hafa sagt við okkur sem möldum í móinn og bendum á að rétt sé að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar með því að hafna þessum orkupakka — á það hafa lögspekingar líka bent. En það er eins og ríkisstjórnin líti á lögfræðileg álit eins og hlaðborð, þau taka bara það sem þeim hugnast best og fellur best.

En ef við erum fyrirvaralítil eða fyrirvaralaus, búin að afsala okkur valdheimildum í stórum stíl, erum við náttúrlega ekki vel stödd ef við ýtum vandanum á undan okkur. Það er einmitt það sem verið er að gera með þessari aðferð hér. Verið er að fresta vandanum. Þetta er svona eins og þegar menn geta ekki tekið óþægilega ákvörðun, þá fresta þeir ákvörðunartökunni, sem er mjög vond latína. Alls staðar. Hún er vond í viðskiptum. Hún er náttúrlega algjörlega afleit við löggjafarstörf. Algjörlega afleit.

Þannig að satt best að segja skil ég ekki hvernig menn láta sér detta það í hug að ætla að framkvæma þetta með þessum hætti. Ég skil það bara ekki. Ef það væru nú bara einhverjir vitleysingar úr Miðflokkurinn sem væru að vara við þessu — en það er ekki svoleiðis. Allmargir lögfræðingar, spekingar, hafa gert nákvæmlega það sama og þeir eru ekki endilega í Miðflokknum. Það hlýtur að vera hægt að hlusta á þá. En menn ákveða að gera það ekki. Því miður.