149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég hef það ekki, vildi að ég hefði það. En það lítur út fyrir að fyrirvarar þeir sem búið er að boða að séu til staðar og við vitum ekki hvort eru til staðar, haldi heldur engu vatni. Þeir eru gjörsamlega gagnslausir. Kannski eru menn undir áhrifum frá Pírötum þarna, því að Píratar hafa jú haldið því fram hér í umræðum, í fyrri umr. eða snemma í síðari umr., held ég, að það þurfi enga fyrirvara, að hægt sé að gera þetta bara fyrirvaralaust.

Ég held að ríkisstjórnin ætli eiginlega að gera þetta með þeim hætti að innleiða þennan orkupakka fyrirvaralaust. Það er mjög alvarlegur hlutur. Ef ég tala bara íslensku held ég að þeir fyrirvarar sem kynntir hafa verið og ekki finnast séu ekki túkallsvirði. Þeir halda hvergi, munu ekki halda neins staðar fyrir neinum einasta dómstól, því miður. Þetta mál er allt á sömu bókina lært.