149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:34]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að fara stuttlega yfir málið í heild sinni, ef ég næ því á þeim fimm mínútum sem mér eru gefnar að þessu sinni í þessari ræðu.

Upphaf málsins má rekja til Evrópusambandsins sem er að innleiða löggjöf á sviði orkumála. Þetta er svokallaði þriðji reglupakkinn á sviði orkumála, þriðja orkutilskipun Evrópusambandsins. Þegar hún hefur verið samþykkt í Evrópusambandinu er hún send til EFTA-ríkjanna og þar í sameiginlegu EES-nefndina svokölluðu til að ræða og átta sig á hvort eigi að innleiða hana í EFTA-ríkjunum.

Þar eru tækifæri til að fá undanþágur eða ef menn telja að viðkomandi regluverk eigi ekki að innleiða í einhverju ákveðnu landi af einhverjum orsökum. Ef menn telja þar á þeim fundum að eitthvað í þessu regluverki gæti hugsanlega leitt til þess að breyta þyrfti löggjöf eða laga löggjöf viðkomandi lands að regluverkinu, þá flaggar viðkomandi ríki. Í þessu tilviki, þegar þriðja orkutilskipunin kom inn á borð sameiginlegu EES-nefndarinnar, þá flaggaði Ísland því að fulltrúar okkar töldu að hér á landi þyrfti að breyta löggjöf til samræmis við ákvæðin í orkutilskipuninni.

Orkutilskipunin er auðvitað samsett af fjölmörgum reglugerðum og fjölmörgum ákvæðum, hver og ein, þetta er flókið lagaverk. En eftir að við höfum flaggað kallast það að setja stjórnskipulegan fyrirvara við málið, sem þýðir raunverulega að við höfum fyrirvara, ætlum ekki að samþykkja þetta fyrr en við erum búin að senda þetta til Íslands, hér fyrir Alþingi og fá samþykki. Síðan verði regluverkinu hér heima breytt til samræmis. Þá lítur Evrópska efnahagssvæðið í rauninni þannig á að regluverkið sé komið í gildi á öllu svæðinu þegar allir hafa gert þetta.

Pakkinn er sendur hingað heim. Það er nú töluvert síðan hann kom hingað. Noregur samþykkti hann fyrir meira en ári síðan. Nú er þetta hér fyrir Alþingi. Svo vill til að þegar þetta kemur hingað fyrir Alþingi þá er það lagt fram á vordögum. Regluverkið er sem sagt lagt fyrir Alþingi núna á vordögum. Af hverju er það, herra forseti? Þetta er mjög skammur tími til að vinna og skoða málið, enda sést það á málsmeðferðinni. Eftir fyrri umr. er málið sent til utanríkismálanefndar þar sem eru maraþonfundir. Umsagnaraðilar fá skamman tíma. Flestar umsagnir, herra forseti, eru neikvæðar. Farið er í maraþonfundi og málið sent svo aftur inn í þingsal. Og menn vissu það auðvitað að allflestir þingflokkar inni í þessum sal voru fylgjandi þingsályktunartillögunni, þannig að menn bjuggust kannski ekki við því að málið myndi stranda inni í þingsal.

En hins vegar, eins og ég hef ítrekað sagt, hafa stjórnarflokkarnir ekki hlustað, ekki hlustað á meiri hluta þjóðarinnar, sem kannanir sýna ítrekað að er á móti innleiðingu þriðju orkutilskipunar Evrópusambandsins. Stjórnarflokkarnir hafa ekki hlustað á fylgismenn sinna eigin flokka sem kannanir sýna einnig að eru að meiri hluta andvígir innleiðingu þessarar orkutilskipunar.

Stjórnarflokkarnir hlusta ekki heldur á ályktanir sinna eigin landsfunda og æðstu funda í tilfelli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þeir hlusta heldur ekki á meiri hluta þeirra umsagna sem bárust vegna málsins til utanríkismálanefndar. Þeir hlusta heldur ekki á alvarlegar viðvaranir sinna eigin lögfræðilegu ráðgjafa sem (Forseti hringir.) hafa varað við því að hér sé verið að ganga mjög nærri stjórnarskránni að því er varðar valdframsal til alþjóðlegra stofnana. (Forseti hringir.) Og auðvitað hlusta þeir ekki á þingmenn Miðflokksins.