149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:40]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans ágætu ræðu. Það virðist blasa við að þessi lagalegi fyrirvari, eða þetta tal um lagalega fyrirvara af hálfu ríkisstjórnarinnar, sé einhvers konar neyðarúrræði gagnvart þeirri niðurstöðu í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, að það leiki alvarlegur vafi á því að þetta mál standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta er eins konar neyðarúrræði.

En menn eru kokhraustir og hafa haldið því fram fullum fetum að þessi lagalegi fyrirvari bæti upp þann ágalla á málinu, sem er náttúrlega augljós. En sérfræðingarnir draga það fram með skýrum og sterkum hætti með því að orða það þannig að það leiki verulegur vafi, herra forseti, í þessum efnum. Það er meira að segja tvítekið í álitinu, að minnsta kosti.

Það bar svo við 15. maí síðastliðinn eftir ræðu hv. formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem er kannski einn helsti ábyrgðarmaður á málinu meðal óbreyttra þingmanna, að ég spurði hv. þingmann hvort hann hefði séð þennan fyrirvara. Hann sagði, með leyfi forseti:

„Sá lagalegi fyrirvari birtist í frágangi málsins. Lagalegur fyrirvari er ekki eitthvað sem maður finnur módel að í lögfræðilegri formálabók.“

Áfram segir:

„Slíkar tillögur liggja ekki fyrir og slík ákvörðun er hvorki í undirbúningi né á borðinu.“

Það voru þessi orð sem gáfu tilefni til þeirrar leitar sem nú fer fram undir forystu hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar, þar sem (Forseti hringir.) hann beitir m.a. sinni lögfræðilegu þekkingu og (Forseti hringir.) reynslu af lögreglustörfum, sem ég vona að komi að gagni (Forseti hringir.) í þessu verkefni.