149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:47]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, það var nú nýjasta tillagan eða uppástungan frá stjórnarliðum, að lagalegi fyrirvarinn fælist í reglugerð. Síðan bárust okkur drög að reglugerð sem hæstv. iðnaðarráðherra mun áforma, líklega, að undirrita uppi í Skuggahverfi. Ég vil leyfa mér að fullyrða að það getur bara ekki verið. Það getur hreinlega ekki verið að þetta sé hinn dularfulli lagalegi fyrirvari sem boðaður hefur verið. Að það sé reglugerð útgefin af ráðherra í ríkisstjórn Íslands, með fullri virðingu fyrir gildi reglugerða. Þær gilda innan lands og eru gefnar út til upplýsinga fyrir áhorfendur og hlustendur. Þær eru gefnar út næstum daglega í Stjórnarráðinu um alls kyns hluti, en að þær hafi eitthvert gildi úti í Evrópu, þær hafi gildi gagnvart tilskipunum Evrópusambandsins sem gilda í tugum landa og eru innleiddar með mikilli vandvirkni í öllum löndum Evrópu og Evrópska efnahagssvæðinu, og að undirritun hæstv. ráðherra undir íslenska reglugerð sem hefur að geyma fjórar greinar sé hinn lagalegi fyrirvari, ég á bágt með að trúa því. Ég myndi vilja láta segja mér það oftar ef ég ætti að trúa því að þar myndi hann leynast, þessi lagalegi fyrirvari.

Menn hafa bent á fleira. Menn hafa t.d. bent á orð í greinargerð með þingsályktunartillögunni, sem hér er til umræðu, á blaðsíðu 3, að þar sé fyrirvarann að finna. Við höfum farið yfir það og ég mun fara yfir það orðalag betur. En það getur ekki verið hinn lagalegi fyrirvari, orð í greinargerð með þingsályktunartillögu.