149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:56]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir spurningarnar. Leitin að lagalega fyrirvaranum stendur yfir, herra forseti. Hann stendur enn yfir. Hann hefur ekki fundist. Hv. þingmaður talaði um sæstreng og notaði orðið feluleikur í því sambandi.

Leitin að fyrirvaranum minnir mig á leik sem ég fór stundum í sem krakki, sem við krakkarnir kölluðum skuggaleik. Þá var bundið fyrir augu eins í hópnum og svo átti hann að ganga um húsakynnin og leita að hinum og reyna að ná þeim ef hann rakst á þá. Þetta var kallaður skuggaleikur.

Leitin að lagalega fyrirvaranum líkist svolítið skuggaleik, vegna þess að ríkisstjórnin kynnir til sögunnar innleiðingu á orkutilskipun Evrópusambandsins með svokölluðum lagalegum fyrirvara. Menn kaupa þetta jafnvel þótt óljóst sé strax frá upphafi hvernig á að orða þennan lagalega fyrirvara og hvar hann á að vera. Málið kemur hingað inn í þingið og er kynnt með þessum hætti. Allir stjórnarþingmenn, að því er ég best veit, fylgja málinu. Það er í þessum búningi.

Síðan komum við, þingmenn Miðflokksins, berum upp þessa spurningu, svona eins og barnið í ævintýrinu: Hvar er lagalegi fyrirvarinn? Menn benda hver á annan og í allar áttir. Þarna er hann, þarna er hann og þarna er hann. Ég er búinn að tilgreina fimm möguleika sem ekki standast það að geta heitið með sanni lagalegur fyrirvari.

Þetta er eins og skuggaleikur, herra forseti.