149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er eitt sem er alveg ljóst og hefur verið frá upphafi þessa máls. Þá á ég við innleiðingu þessa orkupakka, þessara tilskipana Evrópusambandsins um að við verðum þátttakendur í sameiginlegu markaðssvæði raforkunnar á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er eitt sem er hægt að fullyrða með vissu, þ.e. að þessar breytingar hafa gert að verkum að raforkuverð til neytenda, til almennings, til heimilanna, til fyrirtækjanna í landinu, hefur hækkað. Það er hægt að sýna fram á þetta með margvíslegum gögnum.

Auðvitað er það þetta sem skiptir heimilin og fyrirtækin í landinu mestu máli. Varðandi þá fullyrðingu að það sé mikilvægt að við séum þátttakendur á þessu markaðssvæði vegna EES-samningsins þá spyr maður sig: Hafa menn ekki áttað sig á því hverjar afleiðingarnar verða núna þegar orkupakki þrjú verður innleiddur? Ég er sannfærður um að afleiðingarnar verða meiri og stærri en í orkupakka eitt og tvö vegna þess að það er markmið Evrópusambandsins að stjórna markaðssvæði raforkunnar. Raforkuverðið kemur til með að jafnast út. Þá mun það að sjálfsögðu hækka þar sem það er lægst eins og hjá okkur Íslendingum. Þetta er kjarni þessa máls. Þetta er kjarni þessarar umræðu að mínu mati.