149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi gera nánar grein fyrir þeirri heimild sem ég studdist við í fyrra andsvari mínu. Þetta er skýrsla sem er á vegum hugveitu, sem ég kalla svo, sem heitir De Facto og er þekkingarsetur tengt verkalýðshreyfingunni. Þessi skýrsla er alveg glæný, hún er dagsett í apríl 2019.

Hv. þingmaður nefndi hag heimila og atvinnufyrirtækja. Það er algjört lágmark að það liggi fyrir hagfræðileg greining, úttekt á afleiðingum af innleiðingu orkupakkans fyrir þjóðarbúið, áhrif á heimili og atvinnufyrirtæki og áhrif á orkuverð þannig að það þurfi ekki að vera að byggja þetta á getgátum eða einhverjum staðhæfingum eða fullyrðingum sem einstakir þingmenn í stjórnarliðinu setja fram í heimapistlum sem þeir fá birta í dagblöðum.

Við skulum minnast þess að heimilin og atvinnufyrirtækin eru mjög útsett fyrir hvers kyns verðhækkunum sem skella á þeim af fullum þunga. Þetta á ekki síst við um heimilin sem mjög mörg þurfa að standa skil í hverjum mánuði eða á þriggja mánaða fresti af afborgunum og greiðslum af verðtryggðum lánum. Orkuverð hefur ákveðið og þungt vægi inni í vísitölunni.

Það er ábyrgðarhluti að grípa til aðgerða á borð við innleiðingu á þessum orkupakka sem gæti haft þungbærar afleiðingar fyrir fjárhag heimila landsmanna og atvinnufyrirtækja.