149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér hefur þótt mjög góð sú áhersla sem hann hefur lagt í þessari umræðu á kostnað heimila og fyrirtækja af hækkuðu raforkuverði í kjölfar innleiðingar þriðja orkupakkans. Það er greinilegt að verkalýðshreyfingin tekur undir þann málflutning sem við höfum haft uppi hér í þessari viku. Þannig var t.d. send stuðningsyfirlýsing við málflutning Miðflokksins, og það sem hann hefur verið að gera hér, frá formanni VR sem er eitt stærsta stéttarfélag á Íslandi.

Því get ég þessa hér að þótt kjarasamningar séu nýgerðir er ólga í verkalýðshreyfingunni og verkalýðshreyfingin bíður eftir því hvað gerist næst. Þar á meðal hafa menn verið mjög óþolinmóðir í bið eftir skattatillögunum o.fl. sem heitið var af hendi ríkisstjórnarinnar.

Mig langaði bara til að spyrja hv. þingmann að því hvort honum fyndist að það munaði um þennan stuðning sem okkur er veittur og málflutninginn sem við höfum uppi hér af hendi forystumanna í verkalýðshreyfingunni og hvort það sé ekki ráð hjá ríkisstjórninni að taka þetta mál — sem nú hefur verið rætt hér allvel og djúpt — og fresta því fram á haust og ná víðtækari samstöðu um það, eins og við höfum reyndar haft áhuga á allan tímann.