149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir það, og gerði það í fyrri ræðu minni, að auðvitað á að fresta þessu máli fram á haustið. Það er alveg meinalaust. Það veldur ekki neinum usla í stjórnkerfinu þó að þessu máli verði frestað fram á haustið. Þvert á móti hafa ráðherrar í ríkisstjórninni sagt á fyrri stigum þessa máls að skynsamlegt væri að fresta því fram á haustið og afla fleiri gagna, gera ítarlega rannsókn á því hvaða áhrif innleiðing orkupakkans kæmi til með að hafa á heimilin og fyrirtækin í landinu. Það verður að hlusta á verkalýðshreyfinguna þegar hún setur fram þessar áhyggjur sínar. Það er fullkomlega eðlilegt að það sé gert og sanngjarnt að horft sé til þess. Hér er nýbúið að ljúka svokölluðum lífskjarasamningum. Í kringum þá samninga er töluverð óvissa vegna þess að það er óvissa um aðkomu ríkisvaldsins. Á sama tíma ætlar ríkisvaldið og ríkisstjórnin að keyra þetta mál í gegn sem óvíst er hvaða áhrif geti haft á heimilin og fyrirtækin í landinu þegar kemur að raforkuverði.

Ég tek undir það hér að þetta gæti verið sú leið sem hægt væri að sættast á. Það kemur ekki til með að valda neinni ólgu í stjórnkerfinu, kemur ekki til með að valda neinni upplausn hvað varðar EES-samninginn, að fara þurfi ítarlegar og betur ofan í þetta mál. Ég skil ekki alveg þann ótta sem fylgir því að svo verði gert.

Herra forseti. Ég tel þetta mjög skynsamlega tillögu sem var nefnd hér af hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni og fleiri þingmenn hafa tekið undir.