149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það var einmitt það sem ég ætlaði að minnast á næst, þessa ágætu tillögu sem kom fram af hendi hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar um að fresta málinu til hausts, kynna það betur. Hann vildi reyndar kynna það á nokkuð öðrum forsendum en við hefðum kannski kosið en það er allt í lagi. Það er sjálfsagt að varpa ljósi á þetta mál. Þetta mál er flókið, það er stórt, það er áhrifamikið. Það er óendurkræft þannig að það ríður á miklu að vandað sé til.

Mig langaði bara í þessu sambandi að inna hv. þingmann eftir því hvort honum finnist ekki lag nú að ríkisstjórnin, og þess vegna forseti þingsins, beiti sér fyrir því að rætt verði við fleiri þingmenn eða forystumenn þingflokka um akkúrat þessa hugmynd. Ég er ekki viss nema henni yrði vel tekið víðar. Það myndi óneitanlega skapa allt annan brag um afgreiðslu málsins, hvernig sem hún yrði svo þegar þar að kemur. Það er næsta víst að stórum meiri friður yrði um þetta mál ef því yrði frestað til haustsins og spurning hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því að kannski væri rétt að skora hreinlega á ríkisstjórnina að gera þetta — og eftir atvikum forseta þingsins.