149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil nýta þetta tækifæri til að koma í ræðustól vegna yfirlýsingar hæstv. forseta sem lesin var upp á forsetastóli í morgun. Það er auðvitað að mörgu að hyggja í jafn umfangsmikilli umræðu og þeirri sem hér gengur yfir.

Það voru nokkrar ábendingar sem hæstv. forseti kom með í morgun. Við viljum fyrst halda því til haga að það er forseti sem ákvarðar fundarstjórn og dagskrá. Við höfum lagt það til að málið yrði tekið af dagskrá tímabundið eða alveg fram á haustið þannig að það sé tekið til skoðunar. Síðan er mikilvægt að halda því til haga að stór hluti af öllum þeim ræðum sem Miðflokksmenn hafa haldið, hefur verið fluttur utan hefðbundins þingfundatíma, á næturfundum eða aukafundum, eins og þeim sem við erum á núna. Halda verður því til haga að þeir (Forseti hringir.) eru ekki allir á hefðbundnum fundartíma.

Má ég biðja hæstv. forseta um að setja mig aftur á dagskrá undir sama lið?