149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þá að því sem mig langaði til að koma inn á. Fram komu athugasemdir hæstv. forseta í morgun um með hvaða hætti þingmenn Miðflokksins færu í andsvör. Það er okkur nauðsynlegt að geta farið í andsvör við eigin flokksmenn út frá því hvernig málið hefur unnist, þ.e. hversu hratt það var tekið út úr utanríkismálanefnd og hversu lítill tími vannst til undirbúnings.

Við erum í þeirri stöðu að þurfa að vinna gögn jafnt og þétt. Þess vegna getum við lent í þeirri aðstöðu að þurfa að geta átt orðastað hver við annan til að dýpka punkta sem koma fram. Til að sýna lit í þessum efnum ætlum við, þó að það sé ekki formlegt samkomulag um það, að nálgast málið á næstunni þannig að við nýtum, nema eitthvað sérstakt sé, aðeins helming heimilla andsvara þannig að ekki sé verið að teygja þetta sérstaklega. Við þurfum að geta átt ákveðin samskipti hver við annan en þá setjum við okkur takmarkanir. Ég veit að þetta er ekki stóri munurinn í tíma en hann er þó symbólskur hvað það varðar að við viljum leggja okkar til svo sátt geti verið um þau mikilvægu störf sem hér eru unnin.