149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég fagna því að við höfum hæstv. utanríkisráðherra á meðal vor.

Hér hafa staðið miklar umræður um þriðja orkupakkann, um þær forsendur sem hann er reistur á og um þá lögfræðilegu greiningu sem hefur farið fram á honum. Ýmsar áleitnar spurningar hafa vaknað í þessu öllu saman.

Mig langar til að nefna nokkur atriði. Nokkur lögfræðiálit liggja fyrir sem gögn málsins — ég tek fram að maður verður að haga orðum sínum af mikilli nákvæmni þegar rætt er um gögn málsins og hæstv. utanríkisráðherra annars vegar. En þessi lögfræðiálit eru afar vönduð. Eitt þeirra hefur fengið meiri athygli en önnur. Það er álit þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, enda eru þar teiknaðar upp tvær leiðir, eins og það er orðað, eða lausnir. Önnur ber það eindregið með sér, og í álitsgerðinni sýnist það alveg ljóst, að megintillaga þeirra er að leitað verði eftir sáttameðferð á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar. Þetta árétta þeir í bréfi til hæstv. utanríkisráðherra sem dagsett er 10. apríl og verður ekki skilið öðruvísi en svo að þeir leggi áherslu á þessa leið.

En ríkisstjórnin hefur kosið að fara aðra leið og sú leið er óprófuð. Hún er órannsökuð. Um þá leið, leið hins svokallaða lagalega fyrirvara, liggur ekki neitt fyrir, ekki nein lögfræðileg álitsgerð. Það er náttúrlega ekki tækt í svona stóru máli.

Fyrirspurnir um lagalegan fyrirvara hafa leitt í ljós að mjög er á reiki hver hann er, ekki síst í ljósi þess að kastað hefur verið fram, a.m.k. einum fjórum eða fimm tilgátum, tillögum eða fullyrðingum um hvar hans muni að leita. Nægir að nefna greinargerð með þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra, sameiginlega yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra og orkumálastjóra Evrópu, sameiginlega yfirlýsingu EFTA-ríkjanna á fundi sameiginlegu nefndarinnar þann 8. maí síðastliðinn, einhvern texta sem muni eiga að vera í reglugerð sem fyrirhugað er að hæstv. iðnaðarráðherra gefi út.

Þetta er ekki fullnægjandi. Það er alveg ljóst að ekkert af þessu getur haft neitt hald, neitt þjóðréttarlegt gildi. Hér eru því stórar spurningar uppi, annars vegar um það hvar þessa lagalega fyrirvara sé að leita og hins vegar þarf auðvitað lögfræðilega álitsgerð um þjóðréttarlegt gildi slíks fyrirvara.

Þá hefur verið rætt mjög ítarlega um nauðsyn þess að fjallað verði um þriðja orkupakkann í samhengi við hinn fjórða, sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum að liggi nú fyrir tilbúinn. Svokallaður vetrarpakki. Það er ekki fært annað en að þessir orkupakkar séu metnir í samhengi, enda verður að líta þannig á að samþykki við hinn þriðja gerir það mun erfiðara en ella ef finnast myndu slíkir ágallar á þeim fjórða að talið væri nauðsynlegt að hafna honum.

Fleiri atriði mætti nefna. Það vantar greiningu á efnahagslegum áhrifum af innleiðingu þessa orkupakka og sér í lagi vantar greiningu á þróun á orkuverði, en það er þáttur sem til að mynda frændur okkar Norðmenn hafa haft mjög miklar áhyggjur af.

Það eru því margar spurningar uppi. Ein til viðbótar: Áhrif á umhverfi og náttúru.

Ég læt þessari upptalningu lokið, herra forseti, en ítreka að nauðsynlegt er að fá (Forseti hringir.) skýr svör og grjótharðar lögfræðilegar álitsgerðir um þau álitaefni sem uppi eru í lögfræðilegu tilliti.