149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Ég hafði hugsað mér að koma inn á atriði sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson nefndi stuttlega í ræðu sinni, sem er fjórði orkupakkinn og samspil þriðja og fjórða orkupakkans. Það er ekki hægt að slíta þetta í sundur, sérstaklega í ljósi þess hvernig stjórnarmeirihlutinn og stuðningsflokkar hans hafa rökstutt að við þurfum að innleiða þann þriðja. Sá rökstuðningur verður að sjálfsögðu dreginn fram af Evrópusambandinu og öðrum sem kunna að vilja ýta undir innleiðingu fjórða orkupakkans og raunar líka þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar á þeim þriðja, ætli stjórnvöld þá að spyrna við fótum. Íslensk stjórnvöld verða með öðrum orðum þá búin að veikja möguleika okkar á því að spyrna við fótum hvað varðar innleiðingu fjórða orkupakkans og hægt verður að nota þeirra eigin rökstuðning gegn þeim. Ég tala nú ekki um þegar ráðherrar hafa verið að reyna að halda því fram að innleiðing þriðja orkupakkans sé eingöngu nauðsynlegt framhald fortíðarinnar, að menn hafi innleitt þann fyrsta og annan og hafi talað í mörg ár um þann þriðja og þess vegna þurfi að innleiða hann. Hvernig verður þessu snúið þegar fjórði orkupakkinn kemur til sögunnar?

Það sætir því undrun að við skulum ekki hafa fengið kynningu á þessum fjórða orkupakka í samhengi við þann þriðja. Þetta er sérstaklega undarlegt í ljósi þess að nú skilst okkur að samtök og menn úti í bæ hafi fengið slíkar kynningar, en íslensk stjórnvöld ekki sýnt neina tilburði til að setja þingið inn í hvers sé að vænta með fjórða orkupakkanum, hvaða breytinga — eins og til að mynda reglugerð 347/2013 — og hvernig það komi inn í þessa innleiðingu orkupakkans.

Þetta er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að við vitum hvernig þetta kerfi allt saman virkar. Þetta virkar eins og tannhjól sem geta bara snúist í eina átt. Við höfum rifjað hér upp umræðuna þegar önnur orkutilskipunin var lögleidd. Menn eins og Björn Bjarnason vöruðu mjög við því, vöruðu mjög rækilega við því, og það gerðu reyndar menn úr hinum ýmsu flokkum. En utanríkisráðherra þess tíma, Valgerður Sverrisdóttir, hafði miklar áhyggjur af því að það liði að þeim degi þegar ætti að vera búið að innleiða aðra orkutilskipunina. Svo sjáum við söguna nú endurtaka sig og getum dregið ályktanir af því.

Raunin virðist vera sú aftur og aftur að þrátt fyrir aðvaranir stjórnmálamanna, þrátt fyrir aðvaranir ýmissa í samfélaginu, þá ræður kerfið á endanum. Og ekkert kerfi er jafn sterkt við að ýta sér áfram á skrifræðislegan hátt eins og Evrópusambandið. Þess vegna ber okkur að gjalda mjög varhuga við áframhaldandi innleiðingu. Það er ein af ástæðunum, þær eru auðvitað margar eins og við höfum rætt hér.

Svo eru það rökin um að hafna þriðja orkupakkanum eða jafnvel setja hann aftur í sáttaferli í sameiginlegu EES-nefndinni, að það kunni á einhvern hátt að stefna Evrópusamstarfinu eða EES-samstarfinu í hættu. Þetta eru líka rök sem myndu nú aldeilis snúast í höndum manna þegar kæmi að því að verjast síðar, hvort sem það væri út af reglugerð 347/2013 eða út af fjórða orkupakkanum í heild. Þeir sem ekki treysta sér til að setja þriðja orkupakkann í þeirri stöðu sem hann er núna, hafandi ekki verið innleiddur, í það sáttaferli sem EES-samningurinn býður upp á — ætla þeir hinir sömu að koma fram og fullyrða að það sé réttlætanlegt að spyrna við fótum varðandi breytingar á þeim reglugerðum sem menn innleiða í einhvers konar ótta við það að EES-samstarfið kunni jafnvel að vera í hættu? Sumir hafa leyft sér að gefa það til kynna, með því sem ég myndi kalla hræðsluáróðri, að EES-samstarfið kunni að vera í hættu við það eitt að Íslendingar vilji láta skoða það að um er að ræða gerðir sem eiga ekki að hafa þýðingu hér og henta okkur ekki efnahagslega, henta okkur ekki samfélagslega, henta okkur ekki pólitískt — ef menn treysta sér ekki til að ræða slíkt nú sér maður ekki fram á að menn muni verjast á síðari stigum.